English 
Málefni:

Frír matur á Lækjartorgi alla Laugardaga kl.14:00.

Food Not Bombs er alþjóðleg hreyfing sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna árið 1980. Venjulegt fólk, rétt eins og ég og þú, var orðið þreytt á því að horfa upp á ríkisstjórnina eyða gríðarlegum fjármunum í stríðsrekstur á ári hverju á meðan mikill fjöldi fólks býr á götunni og hefur ekki efni á mat. Í stað þess að bíða lengur eftir aðgerðum stjórnvalda tók fólk málin í sínar hendur og byrjaði að gefa þeim mat sem þurftu og vildu.

Á Íslandi er tiltölulega litlu fjármagni eytt í stríðsrekstur enda enginn her starfræktur hér. Ríkisstjórnin hefur samt sem áður sóað allt of miklum pening í landkynningarhátíðir, ný sendiráð, ferðalög á einkaþotum, veislur, eftirlaun og frekari óþarfa. Sá peningur væri betur nýttur á öðrum vettvangi.

Á hverjum degi henda matarverslanir gífurlegu magni af góðum og ætum mat í ruslið, líka hér á Íslandi. Ástæðan getur t.d. verið að síðasti söludagur er liðinn, útlitsgalli er á pakkningum eða ný sending kemur í búðina. Maturinn er samt sem áður í fínu lagi og því er ekkert sem mælir gegn því að matreiða hann og borða.

Langstærstur hluti matar hér á landi er innfluttur. Það þýðir að honum er annað hvort flogið eða siglt hingað og það hefur gríðarleg umhverfisáhrif í för með sér. Framleiðsla á munaðarvörum fyrir vesturlönd hefur nú þegar lagt stór landsvæði í þriðja heiminum í rúst; regnskóga, vötn og beitilönd. Það er því beinlínis glæpur að henda fullkomnlega ætum mat í ruslið.

Rótin á þessum vanda liggur í kerfinu: ofneyslu og offramleiðslu – kapítalisma. Við þekkjum ekki annað en stútfullar búðir af glænýjum og glansandi mat. Matarbúðir vilja halda ákveðnum staðli og vilja alls ekki verða þekktar fyrir að eiga ekki alltaf þessa og hina vöru. Það á alltaf að vera til meira en nóg. Þetta er velmegunarsjúkdómur.

Við höfum nógar auðlindir til að fæða allan heiminn en vegna þess hversu stéttaskiptur og ójafn hann er, lenda sumir undir og hafa ekki aðgang að mat. Samkvæmt Matvælaaðstoð SÞ deyja 10 milljón manns úr hungri og tengdum sjúkdómum á ári hverju.  Á sama tíma er offita að verða eitt stærsta vandamál vesturlanda og ætum mati er hent í ruslið í massavís.

Öll þurfum við næringu, rétt eins og við þurfum andrúmsloft, vatn, húsaskjól og umhyggju. Samfélag þar sem matur er munaðarvara er meingallað samfélag. Samfélag þar sem fáir einstaklingar geta grætt og orðið ríkir á nauðsynjavörum eins og mat, er gjörsamlega spillt samfélag.

Við tökum ekki þátt í þessu spillta kerfi heldur notum afganga neyslusamfélagsins og matreiðum fyrir hvern þann sem vill fá sér að borða. Það munum við gera þangað til við sjáum raunverulegar breytingar.

Matur Ekki Sprengjur er ekki góðgerðasamtök og við viljum engar umbætur. Við viljum algjöra byltingu; samfélag þar sem þarfir fólks vega þyngra en græðgi og ríkidæmi. Við viljum heilbrigt samfélag.

matur.ekki.sprengjur@gmail.com
www.foodnotmbombs.net

2 Litlir Negrastrákar:
  1. Aftaka » Færslusafn » félagsgjald þitt í kapítalismanum: segir, þann :

    [...] brenndu feðraveldið á táknrænan hátt, á Akureyri var drukkið löggu-kakó, á Lækjartorgi borðaði fólk mat í boði offramleiðslunnar á meðan annar hópur þar skammt frá framdi [...]

  2. joi jo segir, þann :

    Almættið egi okkur og verndi

Aftaka er knúin af WordPress.
RSS: Færslur/Viðbrögð
Log in