English 

burtttt

Aftaka.org kveður. Eftir tvö ár af skrifum, sköpun og gjörðum er komið nóg. En það er síður en svo komið nóg af róttækri og hispurslausri gagnrýni. Það er ekki komið nóg af andspyrnu gegn ríkjandi ástandi, kerfi og menningu. Það verður aldrei nóg af henni – sama í hvernig samfélagi við búum. Gagnrýni á ekki bara alltaf rétt á sér heldur er hún forsenda þess að samskipti flæði og staðni ekki. Hún er forsenda þess að fólk finni fyrir eigin mikilvægi í því umhverfi sem það býr í og það átti sig á því að það býr í samfélagi við annað fólk, með aðrar skoðanir.

Allt á sinn líftíma. Ekkert er án enda. Þetta á við um öll form lífs, verkefna, kerfa og samskipta, hvort sem þau enda af sjálfsdáðum, brenna út eða eru rifin niður af ytri öflum. Ef þau enda af sjálfsdáðum er það vegna þess að þau sem að þeim standa átta sig á nauðsyn þess að stoppa og viðurkenna að líftími ákveðins fyrirbæris sé á enda. Ef þau brenna út er það vegna þess að þau sem standa að þeim annað hvort sjá ekki eða neita að sjá þessa nauðsyn. Ef þau eru rifin niður af ytri öflum er það til merkis um skort á styrk; annað hvort geta þau ekki varið sig eða þau standast ekki tímans tönn.

Sú samfélagsgerð sem þekkjum hefur hins vegar með ofbeldi verið vernduð frá því að taka endi og þess í stað haldið neyddri í öndunarvél. Við sem ölumst upp við þessa vernduðu samfélagsgerð, lærum frá unga aldri að stöðnun sé eðlileg; að samfélagið sé staðnað og á einhverjum tímapunkti í lífum okkar verðum við tilbúin, fullmótuð, nógu góð tannhjól til að sinna stöðnuðu starfi okkar og knýja áfram öndunarvélina. Þetta lærum við öll þrátt fyrir að við vitum að einn daginn verði líf okkar á enda. Kvikmyndir um endapunkt þessa heims eins og við þekkjum hann færa okkar ótta. Okkur er kennt að þykja það jafn óhugnarlegt þegar jörðin undir okkur hristist og sýnir lífsmörk, eins og hugmyndin um að mannlegt samfélag sé hugsanlega ekki stóri og óhagganlegi klumpurinn sem okkur var sagt að hann sé. Hugmyndin um endalok mannsins gerir okkur óttaslegin en við vitum ekki af hverju.

Þess vegna er mannlegt samfélag að mestu leyti ein stærðarinnar stöðnun. Vissulega heyrum við daglega fréttir um tækniframfarir á hinum ýmsu sviðum. En allar þessar framfarir, eða öllu heldur allar þessar „breytingar“, eru innan samþykkta rammans. Þær þjóna allar því hlutverki að viðhalda stöðnuninni. Öndunarsjúkdómurinn sem er að leiða samfélagið til dauða – þó því sé stöðugt haldið fram að þvert á móti séu lífslíkurnar að aukast – versnar og versnar. Tannhjólin sem knýja öndunarvélina verða úrelt og því þarf stöðugt að uppfæra þau. Það er eina breytingin.

Við getum sett öll fyrirbæri á borð við Facebook, stöðuga nýja símatækni, nýjar samgöngur, ný lyf, nýja afþreyingu og þar fram eftir götunum, inn í þessa jöfnu. Þau eru eingöngu örsmáar breytur innan hennar og hafa þann tilgang að sannfæra okkur um að samfélagið sé að breytast til batnaðar. Bókstafstrúin á vísindi og lærð lotningin gagnvart vísindamönnum leiðir af sér að þessi blekking um breytingu er almennt samþykkt sem staðreynd, og á sama tíma gleypum við við því að þessar svokölluðu breytingar séu fyrst og fremst afleiðingar forvitni mannsins, en ekki úthugsuð strategía þeirra sem hafa hag af því að samfélagið standi í stað. Hugmyndin um hlutleysi vísindanna sýnir okkur þessar breytingar sem ópólitískar og flest okkar gleypum við lyginni.

— — —

Í tvö ár er Aftaka búin að deila með fólki viðhorfum sínum, skoðunum, hugsunum og tilfinningum. Hún hefur lagt öll spil á borðið og sýnt: Þetta er ég og þetta stend ég fyrir. Þannig eiga samskipti líka að vera, hvort sem þau eru á stórum eða smáum skala. Línurnar eiga að vera sýnilegar og þegar litið er um öxl er alveg ljóst að frá upphafi dróg Aftaka skýrar línur, sem einungis skerptust síðustu tvö árin. Og þó fólk hafi ekki skrifað undir nafni hér á Aftöku þá hefur afstaða okkar sem miðils alltaf verið skýr og ekki farið á milli máli að við erum anarkistar og að við tökum virkan þátt í anarkískri baráttu, bæði með beinni þátttöku og með umfjöllun um hana.

Aldrei gáfum við okkur út fyrir að vera hlutlaus. Þvert á móti höfnuðum við hugmyndinni um möguleikann á hlutleysi og allt sem hefur verið birt á síðunni eða annars staðar í nafni Aftöku, hefur verið laust við hvers lags tilgerðarhlutleysi. Við höfum rýnt ofan í samfélagið, greint það og gagnrýnt og aldrei haft nokkurn áhuga á því að spegla það. Aftaka hefur lært af mistökum og því sem vel hefur heppnast; hún hefur þróast, breyst og þroskast en það hefur aldrei farið á milli mála hvar hún stendur hverju sinni. Og hún er einungis það sem hún er hverju sinni.

— — —

Við skoðun síðunnar er augljóst að mannlegt samfélag hryllir okkur. En sem anarkistar viljum við halda í þá trú að ef mannskepnan lifði ekki undir ógnarvaldi stigveldisins væri það sjálft áhugaverðara, ánægðara og bærilegra í samskiptum. Því gefum við samfélaginu séns á að breytast – eða öllu heldur mannskepnunum innan þess, ef þeim tekst að brjótast undan kúguninni. En við trúum samt ekki á byltingu og vitum að mannlegt samfélag verður aldrei laust við átök, hvort sem átökin séu á milli tveggja manna eða á milli manns og ómannlegrar náttúru.

Það er ekkert eitt form andspyrnu ofar öðrum. Engin ein aðferð virkar hvar sem er, hvenær sem er. Það virðist hins vegar oft vera hugmynd svokallaðra pólitískra aktívista að gamalgróna andspyrnuhefð sé hægt að endurtaka í sífellu en knýja samt fram breytingar. Þessi hugmynd er að einhverju leyti skiljanleg þegar við minnumst þess að öll erum við alin upp við hugmyndina um náttúrulögmál stöðnunnar. Þótt augljóst sé að „aktívistarnir“ hafi í það minnsta tekið eitt skref út fyrir rammann, fyrst þeir á annað borð eru tilbúnir til að ögra grunngildum samfélagsins, er haldreipi kerfisins á okkur svo sterkt og rótgróið að stöðnunin kallar sífellt á okkur. Sama hversu viss við erum í sannfæringu okkar um að breyta samfélaginu eigum við það alltaf á hættu að fara að hugsa sem svo að við séum komin á „réttan stað“, komin nógu langt út fyrir rammann og getum því staðnæmst þar en samt haldið áfram að ögra og spyrna á móti.

Þetta gerist vegna ótta og þar af leiðandi af þrá fyrir visst öryggi og þægindi umfram allt. Okkur hefur verið kennt að óttast hið óþekkta og ganga heldur troðnar slóðir. „Aktívistinn“ tekur sér því fyrirframgefið hlutverk sitt, ekkert síður en sá sem ákveður að gerast læknir, leigubílstjóri eða listamaður. Hlutverk sem þó gefur honum ráðrúm, eins og öll önnur hlutverk, til að spila það að einhverju leyti eftir eigin nefi. En fyrst og fremst er hann það sem starfslýsingin segir honum að vera. Gert er ráð fyrir öllum þessum stöðuheitum í samfélaginu og þar af leiðandi er alls ekkert víst að „aktívistar“ ögri eða breyti nokkrum sköpuðum hlut.

Auðvitað eru alls staðar frávik. En í grunninn ögra fæstir stöðu sinni og hlutverkum, og ögra þar af leiðandi heldur ekki stærra samhenginu. Fólk almennt óttast ímyndarafl sitt og hugmyndina um að þurfa að standa algjörlega á eigin fótum og með sjálfu sér. En það er einmitt með ímyndunaraflinu, innsæinu og hugrekkinu sem fólk fær og framkæmir sínar bestu og róttækustu hugmyndir. Við getum því ekki annað en hvatt fólk til að gangast aldrei við fyrirframgefnum hlutverkum og efast alltaf um þau hlutverk sem fljótt á litið eru í boði. Þannig er ekki aðeins líklegast að hver og einn einstaklingur þroskist og dafni á sinn einstaka hátt, þann hátt sem hentar honum – sem eitt og sér er alvarleg ögrun við tannhjólssamfélagið – heldur einnig líklegast að framtak hans gefi eitthvað nýtt af sér og, andskotinn hafi það, breyti einhverju.

— — —

Aftaka, sem vefsíða í bloggformi, var samfélagslega- og samtímatengd, þ.e. við notuðum atburði líðandi stundar til að útskýra okkar anarkísku sýn á samfélagið og á siðmenninguna. En við áformuðum aldrei að staðna þar, heldur vorum alltaf opin fyrir því að segja: nú er komið nóg, nú er kominn tími á eitthvað nýtt. Það er því ekki beint Aftaka sem nú kveður, heldur vefsíðan Aftaka.org. Fyrirbærið Aftaka mun einn daginn leggjast niður og gefa upp öndina. En ekki strax. Núna erum við að stökkbreytast, komast á annað stig, með algjörlega ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Á þessum tveimur árum gátum við ómögulega tekið á öllu því sem okkur langaði eða fannst við þurfa að taka á. Fyrir hverja færslu á síðunni eru til tíu sinnum fleiri færslur sem voru við það að koma lesendum fyrir sjónir en gerðu það á endanum ekki. Og enn fleiri færslur sem urðu aldrei neitt meira en hugmynd í kolli þeirra sem koma að síðunni.

Það var líka þannig að eftir því sem á leið varð okkur alltaf ljósara hversu útbreiddur error mannfélagsins er; að málefni sem við eitt sinn litum á sem lokuð og einstök mál, eru bara einkenni sjúkdómsins en ekki sjúkdómurinn sjálfur. Með hverjum deginum er flóknara að velja úr þeim hafsjó sjúkdómseinkenna sem umlykja allt og alla. Oft fengum við ábendingar um að umfjöllunarefni okkar væru smáatriði miðað það sem „raunverulega skipti máli“. En það eru einmitt smáatriðin sem stinga oft dýpst af þeim öllum. Smáatriðin sem í fyrstu eru ekki eins augljós né eins „alvarleg“ og stóru sýnilegu ofsaverk þessa kerfis, en sýna á endanum raunveruleg ítök sjúkdómsins.

Og þar var einmitt augljóst að þegar við völdum frekar að skoða og gagnrýna smáu atriðin – sem í flestum tilfellum náðu frekar inn undir skinnið á lesendum síðunnar heldur en umfjöllun um þann ójöfnuð og ofbeldi sem flestir koma auga á og viðurkenna sem vandamál – kölluðum við fram hörðustu viðbrögðin. Þegar við gagnrýndum hegðun sem er talin eðlilegur þáttur þess að búa í mannlegu samfélagi, var eins og fólk yrði reitt og sárt yfir því að við værum að ráðast á litla manninn. „Hvað viljiði þá í staðinn?“ voru algengustu viðbrögðin. Algjört hugmyndaleysi um aðrar leiðir til þess að lifa í þessum heimi.

Allan tímann gagnrýndum við okkur sjálf. Við erum ekki óflekkuð og sama hversu mikið við myndum vilja það, sama hversu mikið við reynum, verðum við það aldrei. Gagnrýninni á litla manninn var því ekki síður beint gegn okkur. En við getum ekki látið þá staðreynd hversu flekkuð við erum, stöðva andóf okkar. Við getum ekki látið það setja hömlur á ímyndunaraflið og drepa niður þrá okkar fyrir því að sigrast á sjúkdómnum, brjóta þessa menningu niður til grunna. Annars gætum við bara gleymt þessu öllu saman og haldið áfram skröltinu í tannhjólunum.

— — —

Nú þegar Aftaka.org gengur burt hvetjum við fólk til að hætta að vera einungis neytendur á upplýsingar. Passífi allsherjar neytandinn er einmitt sterkasta og mikilvægasta stoð þess að samfélagið standi í stað. Um leið og einni stoð er kippt undan bákninu standa hinar valtari fæti.

Þegar við settum síðuna af stað vorum við algjörir nýliðar og höfðum hvorki reynslu né menntun í því sem við ákváðum að gera. Síðan var því okkar skóli og við virtum að vettugi kröfur um tungutak fræðasamfélagsins, sem talað er um sem fágað og yfirvegað, en er fyrst og fremst bælt og yfirborðskennt. Frá fyrsta degi vorum við staðföst í því að vera eins dónaleg og við vildum, eins dónaleg og efni stóðu til. Það er ekkert ómálefnalegt við dónaskap þegar dónaskapurinn á rétt á sér. Umræður á þingi og akademískar ritdeilur eru eflaust bestu dæmin um hversu aumkunarvert og hjákátleg það er að þora ekki að segja það sem raunverulega býr mann í brjósti; að skreyta hugsanir sínar og skoðanir með orðræðu sem ekki eru einungis samþykkt af samfélagselítunni, heldur er gerð krafa til hennar. Án þessarar skrautorðræðu finnst fólki eins og það hafi ekki tök á málinu, álitið heimskt af öðrum og hafi jafnvel enga ástæðu eða rétt til að tjá sig. Við gáfum og gefum enn skít í það skítaviðhorf.

Krafan um um kurteisi er krafa um þegnhlýðni. Yfirvöld eru hvorki kurteis né tillitsöm. Hispurslaus hreinskilni er óhlýðni og er það eina sem dugar gegn kerfisbundinni bælingu.

Það að skrifa er bara ein leið til að vinna úr upplýsingum og tjá sig um þær. Við völdum aðallega þá leið og gengum meira að segja þrengri slóð en svo, með því að velja okkur bloggformið sem miðil. Það eru ótal aðrar leiðir fyrir hendi, engin þeirra er æðri annarri og oftast skiptir mestu máli að skilja hvenær hvaða aðferð hentar best. Stundum hentar betur að kveikja elda en að skrifa grein, stundum eru gjörningar hentugri en grjótkast.

Við hvetjum alla til að rýna ítarlega í það sem sett er á borð fyrir þá eða það sem fyrir augum þeirra verður. Að vinna og skapa úr upplýsingunum skýrir hugsun okkar allra, skerpir hnífsblaðið og gerir okkur færari í því að sjá raunverulegt innihald upplýsinganna frekar en að deyfast undan þeim.

— — —

Að þessum orðum sögðum göngum við burt.

Óþægð og uppreisn og aldrei stöðnun!

Aftaka!

34 Litlir Negrastrákar:
 1. Andri I segir, þann :

  Synd að þessi góði vefur skuli fara. Oft athygliverð skrif. En ég vona þá að þið finnið ykkur góðann vettvang og “Núna erum við að stökkbreytast, komast á annað stig, með algjörlega ófyrirsjáanlegum afleiðingum.” þýðir ekki að þetta annað stig sé ekki ,,pussing out” ;)

  Því eins núna eins og alltaf er tíminn til að sýna andspyrnu. Án hennar fær það sem þið kallið stöðnun… en ég vil frekar kalla ofurtrú eða von á kerfið. Við treystum foringjanum, “mér er sama” eða “þetta reddast” attitude.
  Alltof oft finnst mér fólk vera hrætt.. ef þessi er ekki að stjórna þá fá hinu verri pólitíkusarnir að gera það. Ímyndunaraflið er ekki meira en það. Þá virðist líka núverandi staða allt í lagi.

  Ég veit ekki hvort ég geti tekið undir ykkar anarkistahugmyndum að samfélagi en við getum þó verið sammála um það að vera óþolandi þolinmóð, prúð og þæg er ekki að fara færa okkur betra og sanngjarnara samfélagi.

 2. Eva Hauksdóttir segir, þann :

  Mér finnst ekki sorglegt að Aftaka sé á förum. Ég mun sakna hennar, rétt eins og ég saknaði strákanna minna þegar þeir fóru að heiman en það er ekki sorglegt, heldur þvert á móti fagnaðarefni að fólk sem hefur eitthvað að segja skuli leita sér að nýjum aðferðum og nýjum vettvangi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að hinir fersku og róttæku pennar Aftöku muni halda áfram að reka kúststöft í rassgöt smáborgaranna og ergja yfirvöld með sannleiksást sinni þótt þeir hætti að birta skrif sín hérna.

  Með kærri þökk fyrir allar dásamlegu greinarnar sem hér hafa birst og gangi ykkur vel að stökkbreytast :)

 3. gamla segir, þann :

  Hafið þakkir fyrir samveruna.

 4. Vésteinn Valgarðsson segir, þann :

  Þótt ég hafi nú ekki verið sammála hverju orði hér alltaf (skárra væri það nú), þá verður nú sjónarsviptir að síðunni. Ætlið það að láta hana hanga uppi áfram eða eyða henni bara út?

 5. Davíð Þ segir, þann :

  Takk fyrir allt Aftaka, þú hefur kennt mér ansi margt sem foreldrar mínir hefðu aldrei gert.

 6. Aftaka segir, þann :

  Aftaka verður ekki tekin af netinu – hún verður hér áfram.

  Allir rólegir.

 7. Sólveig Anna segir, þann :

  kæra aftaka, bestu þakkir fyrir alltsaman. þið hafið sannarlega verið skemmtilegust á íslensku internetunum!

 8. Nafn segir, þann :

  bitter sweet! kannski kominn tími til – en eftirsjá.

 9. Viðar Þorsteinsson segir, þann :

  Kæra Aftaka.
  Ég hef átt með þér margar uppljómandi og byltingarkenndar stundir. Þú varst meira en góð vefsíða, ljós í myrkrinu. Far vel.
  Viðar

 10. Kolbrún Bergþórsdóttir segir, þann :

  Dauði seinustu lífstórunnar á þessu helvítis skítalandi. Hvað á maður nú að lesa? Maður getur ekki legist svo lágt að lesa helvítis feitabolluna hann Silfur Egils!

 11. Árni segir, þann :

  Peace it, to the face.

 12. Nonni segir, þann :

  Elsku aftaka, þín verður saknað.

 13. siggi pönk segir, þann :

  Hvenær kemur bókin “Helstu aftökur” ? :)

  Takk fyrir kjaftháttinn – internetið er svo innilega forgengilegt að ég vil frekar sjá aftökupenna gefa út bækur!

 14. Rósa María segir, þann :

  Takk fyrir allar stundirnar og allar þær upplýsingar sem ég þurfti að heyra og læra af.

 15. Björg segir, þann :

  Deyr fé,
  deyja frændur,
  deyr sjálfur ið sama.
  En orðstír
  deyr aldregi
  hveim er sér góðan getur.

 16. Kjaftfor segir, þann :

  Takk fyrir að hafa verið eini þolanlegi fjölmiðill þessa lands svo lengi sem þið voruð.

 17. illeM segir, þann :

  .illeM ,dnym irttyerbkköts í rukky és ,tsöf nisorf re munaralljkalok ða niðruh go tsorf uðárg 02 re ðaþ :tgas arab teg gÉ

 18. spritti segir, þann :

  Hvaða rugl er þetta. Sýna staðfestu og blogga áfram.

 19. lalli segir, þann :

  Takk fyrir samveruna kæra aftaka. Það var gaman að fá að hugsa með ykkur og móta sínar eigin skoðanir á kerfisgöllum heimsins. Ég bíð spenntur eftir bókinni “helstu aftökur” því ég mun stela mörgum eintökum í jólapakkana fyrir vini og vandamenn. Gleðilega stökkbreytingu!

 20. Jon Karl segir, þann :

  Tja, takk fyrir skemmtileg tvö ár og gangi ykkur vel með framhaldið. Þið náðuð aldeilis að ögra og hrista upp.

 21. Bölverkur segir, þann :

  Takk fyrir mig, Aftaka. Þessi seinasti pistill var einstaklega góður. Ég fagna árangri ykkar á þessum tveimur árum og hlakka til komandi stökkbreytinga!

 22. Ónefnd segir, þann :

  Mér finnst hræðileg tilhugsun að Aftaka verði ekki lengur mótvægisafl við það sem fyrir er, því það þarf að stíga skrefinu lengra til að hafa áhrif og það hafið þið svo sannarlega gert og það þarf hugrekki og þor til þess….
  Til hamingju fyrir að þora og vera gagnrýnin á það sem ekki er í lagi í samfélaginu okkar sem er mjög spillt og öll mótstaða hefur markvisst verið brotin niður síðustu árin eins og kom fram í rannsókn sem Þorvaldur Logason er að vinna að um kerfislæga spillingu kapitalismans og einkasamfélag nýfrjálshyggjunnar.
  Hann spyr, hvernig á að beita almannavaldi í þágu almennings???
  Hann heldur áfram að rannsaka þessa kerfislægu spillingu síðustu ára og er það af hinu góða og til að brjóta spillinguna á bak aftur, en það þarf alltaf að vera vakandi og taka til hendinni þegar þess er þörf og þess vegna er mjög mikilvægt að einhverjir taki við þar sem Aftaka hættir og haldi fána Anarkista og Aftöku á lofti eins lengi og illu öflin eru við líði og það verður alltaf… svo við verðum að halda vöku okkar!!!
  Takk Aftaka fyrir að vera og gera….áfram..áfram hvar sem þið takið til hendinni og takk…takk takkkkkkkk
  Baráttukv.
  Ónefnd

 23. Anonymous segir, þann :

  Það þarf virkilega nýja og virka síðu með Anarkískum boðskap hér á landi. Kannski maður taki því að sér ef ekkert gerist í bráð.

 24. Svartsokka segir, þann :

  http://svartsokka.org

 25. Anonymous segir, þann :

  Svartsokka er voða flott síða, en það sem skiptir öllu eru greinarnar. Aftaka snérist um fallegar greinar.

  Eins og staðan er í dag finnst mér Svartsokka alls ekki nóg, pennarnir þurfa að skrifa minnsta kosti vikulega(helst þrisvar í viku) og fjalla um innlend mál, birta myndir af aðgerðum, segja frá aðgerðum og flr.

 26. Branda segir, þann :

  Já, nú mæðir á Svartsokku.org sem er mjög lofandi en það er ekki hægt að vera bara lofandi alltaf.

  Ég bíð t.d. spennt eftir að sjá að anarkó-femínismi, sem nafnið ber í sér, fari að láta kræla á sér í formi greina á Svartsokku.org

 27. Linus segir, þann :

  Til hamingju med vel heppnad verkefni, vinir. Thid hafid verid sem bensín á uppreisnar eldinn í langan tíma. Ég man varla eftir hvernig hreyfingin virkadi án thessa midils. Megi Aftöku metnadurinn lifa í nýum verkefnum.

 28. Bjarni segir, þann :

  Aftaka má ekki leggjast í kistuna “Þroski 1-2 ár :
  Á þessum aldrei eru þau að ná meiri og meira færni í að ganga og klifra. Ganga upp og niður tröppur. Þau ná betri og betri færni með fingrunum eins og setja litla hluti á sinn t.d rör ofaní fernu. Teikna á blað. Hella vatni úr einu glasi í annað. Hnoða deig. Málþroski kemur oft hratt á þessu aldursskeiði. Leikir barnanna verða meira og meira spegilmynd af því sem þau sjá.
  Allt er mjög áhugavert og passið að meta ekki öll uppátæki barna sem óþekkt þau eru líklega bara að prófa sig áfram og læra. ” & “Þegar barnið er 2 til 2 ½ árs gamalt fer það að nota orð í samskiptum við aðra og spyr mikið um hluti í kringum sig. Orðaforðinn vex hratt og barnið notar orðið ég um sjálft sig. Algengt orð í samskiptum barnsins við aðra er orðið hvað (t.d. hvað er þetta, hvað ertu að gera).
  Tungumálið er nú orðið nokkuð góður samskiptamiðill og barnið getur tjáð óskir sínar og þarfir og sagt frá einföldum atburðum. Barnið hlustar líka mikið á fullorðna og þeir sem umgangast barnið daglega þurfa því að endurtaka orð og setningar. Mikilvægt er að hafa að í huga að tala vandað mál og tala ekki of hratt því barnið lærir mest af okkur fullorðna fólkinu.” – Artaka er í þessum aldurs skilningi statt, þar að segja þið eruð við þrepið að þróa sjálfstæðan persónuleika og koma ykkar ásýnd og rödd fram. Og það sem er að þá hafið þið eftirtekt og stað þess að fara að apa eftir kassaða dæmi lífsins ( að beygja sig undir þá sem eldri eru) og þið/við erum komin yfir ungbarnadauða aldurinn.
  Því segji ég nei Aftaka á ekki að leggjast niður í þeim skrefum sem að hún er ná að athygli almennings , komin úr barnavagninum og jafnframt hefur leitt fram aðra hugsun að því leiti að svona spillingu leiðum við ekki framhjá okkur heldur aðhæfumst geng henni, hvort sem það er í orði eða gjörðum ( þið eruð þau sem stóðuð upp og framkvæmdu það sem allir hugsuðu og langaði til en þorðu ekki).
  Nú er ekki tíminn til að hætta, ranssóknarskýrslan (HVÍTBÓKIN jafnvel) fer að verða matreidd fram fyrir vora þjóð.. Og mér finnst að þið þurfið að vera þá enn á meðal vor.

 29. Anonymous segir, þann :

  “Að þessum orðum sögðum göngum við burt…” Ekki drepast úr tilgerð þarna heilögu beljur.

 30. Mara segir, þann :

  Elsku Analmús, kanntu ekki að meta seinasta mjólkurdreitil hinnar árásargjörnu og ljóðrænu Aftöku? Ég legg til að þú mjólkir þig littla skinn! Það kemur eflaust eitthvað hlægilegt út úr því.

 31. Haukur Már Helgason segir, þann :

  Svo miklar þakkir fyrir rofin mörk, kæra Aftaka.

  Í kveðjuskyni: magnaðasta barnaefni sem ég veit til að hafi verið framleitt og sýnt af nokkru ríkissjónvarpi, á Spáni eftir að Franco fór frá og einhverjir kunnu bæði að anda frelsi og blása því: Bola de Cristal.

  Hér kemur vondi kapítalistinn í heimsókn til ráðherra fjármála og leyndardóma:
  http://www.youtube.com/watch?v=RnOBdhi3hnE

  Og hér er seinni hluti byltingarsögu heimsins rakinn fyrir börnin:
  http://www.youtube.com/watch?v=emsMKGXJOhU

 32. Anonymous segir, þann :

  Redda sér bara pennum til að skrifa greinar á síðuna?

 33. Anonymous segir, þann :

  lifðu!

 34. Róstur segir, þann :

  Róstur: http://www.rostur.org

Aftaka er knúin af WordPress.
RSS: Færslur/Viðbrögð
Log in