Sko*Blogg http://skorrdal.net Skorrdal: Gamalt og nýtt í bland Thu, 24 Mar 2016 12:21:54 +0000 is-IS hourly 1 https://wordpress.org/?v=4.5.4 Páskahugverkjan: Krossriðlarnir http://skorrdal.net/paskahugverkjan-krossridlarnir/?utm_source=rss&utm_medium=rss Thu, 24 Mar 2016 12:21:54 +0000 http://skorrdal.net/?p=1930 Skírdagur með óskýra sýn; sólrisuhátíð haldin fjórum mánuðum of seint, felld saman við frjósemishátíðar fortíðar. Nú skal riðið úr hlaði og á, úti á túni og við; hvar þar sem Náttúran ríður rækjum.

Allt er lygi, líka Sannleikurinn — Græðgin hefur stjórnað frá upphafi. Án Júdasar hefði enginn orðið Kristur; án Krists verður Júdasi ekki fyrirgefið — og Kristur fyrirgaf honum fyrirfram. Fylgjendur hans fatta ekki mikilvægi þessa alls og hafa fordæmt hann í 2000 ár. Fyrirgefningin er víst valkvæð í þeirra huga.

Hefði ég verið í sömu sporum og þessi Jésú, hefði ég aðeins treyst mínum nánasta til verksins; hinum væri ekki treystandi. Þeir vildu hafa rabbíann sem lengst á lífi. Sem betur fer var ég í öðru.

Svo eru það eggin og kanínurnar og Annar í páskum; þá var haldið upprisukaffi, degi of seint vegna misskilnings. Frá síðdegi á föstudegi til sunnudagsmorguns eru ekki einu sinni 48 tímar. Ég skil ekki hve lengi lygin hefur lifað. Og þetta er kennt í Háskóla Íslands sem sannleikur.

Tunglið er fullt af mælingum. Þess vegna er krossfestingin aldrei á sama mánaðardegi — eða í sama mánuði — því það var ekki búið að finna upp Júlíusar dagatalið sem fokkaði öllu upp hvað daga varðar — nema jólunum. Þau hafa alltaf ráðist af sólinni, sem hættir að ferðast til heljar þann 22. desember, virðist hvílast þar uns hún rís aftur á þriðja degi þann 25. des. fæðingardegi ljóssins. Þaðan sem súkkulaðið er komið.

Sólin, stjörnumerkin, tunglið og pláneturnar eru grunnur þess sem nú gerir allt vitlaust í veröldinni — og allir þykjast hafa hinn eins sanna Sannleika. Þeir eru allir blindir af lygum Græðginnar, sem situr feit í sínum gullstólum og segir öðrum hvernig þeir eigi að vera fátækir og gefa þeim aur. Sannleikurinn er hinsvegar sá að ekkert stendur, nema Sólin og Tunglið og stjörnurnar, þaðan sem öll þekking er komin — og mun aftur þangað hverfa. Allt annað eru smáatriði sem eiga ekki að skipta neinu máli. Það er hinsvegar Græðgin sem stjórnar og hefur gert frá upphafi leiðtoga.

Þess vegna var þessi Jésú svo hættulegur; hann talaði gegn Valdinu, Græðginni og stjórnun Hrokans á Anda mannsins. Skipulögð trúarbrögð voru eitur í hans beinum — nú eru orð hans notuð til að stjórna milljörðum.

Sannleikurinn er lygi — Lífið blekking. Gleðilega greddu.

]]>
Minning um Mömmu http://skorrdal.net/minning-um-mommu/?utm_source=rss&utm_medium=rss Fri, 29 Jan 2016 01:41:16 +0000 http://skorrdal.net/?p=1925 Það var fólk í stofunni um miðja nótt og allt var myrkt, nema ljósin í Kópavogi og inni í eldhúsi. Allir reyndu að horfa í suður, yfir holt og hæðir. Út í fjarskann var rýnt og athugað hvort bjarma bæri á himinn en ekkert sást. Barnið fann óttann og óvissuna í fullorðna fólkinu, sem sagði fátt en horfði hvert á annað milli þess sem var horft í suður. Samt fann barnið öryggið og umhyggjuna hjá móðurinni, sem hélt því fast að brjósti sér mitt í allri óvissunni. Sá til þess að ótti hinna stóru færðist ekki yfir á hina smærri. Það var 23. janúar 1973 og ég byrjaði, greinilega, að skrásetja afturkallanlegar minningar.

Ruth Halla Sigurgeirsdóttir fæddist þennan dag, 29. janúar 1946 í Vestmannaeyjum. Uppvaxarár átti hún meðal annars á Vallatröðinni í Kópavogi — Ruth Höllu-tröð — en margar skemmtilegar minningar átti hún þaðan. „Víst er mamma mín mella!“ var ein af hennar skemmtisögum þaðan — og alltaf hló hún jafn mikið.

Það var engin mér mikilvægari gegnum öll mín veikindi og frá fyrsta degi hefur hún þurft að þola mikla sálarangist, með svo veikt barn og brothætt. Aldrei sást á henni uppgjöf eða angist. Samt hafa þeir tímar eflaust komið, oftar en nokkur mun vita. Hún var minn klettur, áttaviti og hetja; ég mun aldrei verða samur.

Alveg sama hvað gekk á í mínu lífi, alltaf gat ég leitað aftur í öryggið og hlýjuna sem ég man svo vel eftir frá upphafi goss í Eyjum; enginn sýndi geðveiki minni eins mikinn skilning og stuðning og hún. Þegar aðrir brugðust stóð hún, Klettur minn og festa í mannskaðaveðri því sem líf mitt hefur alla tíð verið.

Hún kenndi mér og leiðbeindi, ávítaði og skammaðist. En aldrei minnkaði ást hennar né umhyggja; hvað sem á gekk, var hún alltaf söm — alltaf Mamma. Svo hvarf hún og allt varð að engu; festingar slitnuðu og mig rak burt. Aldrei mun líf mitt verða samt að nýju; engin kemur í hennar stað, frekar en hægt væri að skipta út Sólinni fyrir kertaljós.

Enn rek ég um öldur óvissunnar, án festu — án skilnings; enginn þekkir mig líkt og hún, sem alla tíð bar mig á höndum sér, hvað svo sem gekk á í hennar lífi. Ég vildi að ég gæti sagt hið sama; ég bý bara ekki yfir þeim sama styrk, þolinmæði eða kærleika og hún. Og mun aldrei gera.

Við áttum okkar kveðjustund, tvö ein. Hún var svo falleg — en ekki heil. Ég hafði gert það sem hún bað mig um svo mörgum árum áður. Fæ mína dóma fyrir það — mér gæti ekki verið meira sama. Og allt annað, sem hún óskaði, hef ég fylgt og mun fylgja eins lengi og hún mig biður og ég lifi.

Ég elska þig, Mamma og sakna þín meira en orð fá lýst.

]]>
Afsakið — ég er mannlegur http://skorrdal.net/afsakid-eg-er-mannlegur/?utm_source=rss&utm_medium=rss Sun, 20 Dec 2015 05:49:29 +0000 http://skorrdal.net/?p=1921 Það kemur fyrir að ég geri mistök. Af og til, endrum og sinnum. Sum eru stærri en önnur — þessi stóru eru skráð í Bókina, sem fylgir mér hvert sem ég fer og ég leyfi mér að glugga í af og til, aðallega til að forðast að endurtaka sömu vitleysuna aftur og aftur. Þessi minni skrái ég ekki niður, heldur reyni að treysta á minnið, sem stundum bregst mér eins og gengur og gerist. Í gær gerði ég mistök, en ég er ekki viss um af hvaða stærðargráðu þau eru, svo ég hef enn ekki skráð þau niður.

Þetta byrjaði allt með óánægjuathugasemd, sem vatt svo upp á sig og varð að pistli; ég er orðinn svo þreyttur á svikum og prettum, blekkingum og uppgerð — mannvonnsku, vandlætingum og ásökunum. Og ég hef meira en fullan rétt á því að hafa þá skoðun, setja hana fram og lýsa óánægju minni, jafnvel hjá þeim sem ég hef stutt með ráðum og dáð, frá upphafi vega. Eða þar um bil.

Núna ætti að koma langur listi — upptalning — á öllum þeim kvillum og ambögum sem ég þarf að takast á við hvern einasta dag, svona til að byggja upp vorkunn og æj-ó-og-aumingja-hann, svona fyrir áhrifin. En ég kæri mig ekki um neina andskotans vorkunn; ég þarf jafnmikið á henni að halda og ónýtu ónæmiskerfi. Einnig ætti ég að telja upp, allt það sem lífið kostar og matur og guð-má-vita-hvað, því ég hef það svo skítt og allt það — en ég nenni því ekki heldur; get það ekki, því ég á það góðan lífeyrissjóð. Mér finnst ég heldur ekki vera neitt veikur; ég er full frískur, með smá kvilla. Ég kemst út í búð og til baka, en ekki mikið meira en það — en það eru bara svo miklu fleiri sem hafa það mun verra en ég, sem við eigum að vera að einblína á að bjarga, styðja, styrkja og hjálpa. En vegna þess að ég get aðeins talað út frá mér og minni reynslu, þá neyðist ég að notast við það auma viðmið sem ég er.

Síðastliðin þrjátíu ár, eða svo, hef ég einungis verið verkjalaus þegar mér hefur verið gefið morfín í æð og það vel af því. Einu næturnar sem ég hef sofið heilar í gegn, frá því ég var krakki, hafa verið þær nætur sem ég hef farið að sofa ofurölvi, útúr dópaður, eftir nokkur spjöld af svefnlyfjum, eða ég hreinlega í dái. Og í dag eru þetta mín minnstu vandamál. Svo þið getið trúað mér, þegar ég segi: Það er meira en full vinna að vera ég — og samt hef ég þurft að vera í yfirvinnu síðustu 2 árin.

Það er ekki nóg með það, að við sem neyðumst til að hafa tekjur okkar frá Ríkissjóði, skulum búa við álíka tekjuöryggi og kamikaze flugmenn japanska keisarans, heldur er okkur boðið upp á auka álögur á hverju ári, svona í jólabónus. Fjármál okkar eru opin bók fyrir starfsfólk Tryggingarstofnunar — í boði alþingis; lífeyrissréttur okkar er skertur, vegna tekjutryggingar — í boði alþingis; skattar á nauðsynjar okkar eru hækkaðir — í boði alþingis; læknisþjónusta og lyf hækka orðið árlega — í boði alþingis. Svo, vegna þess að Ríkið er að spara, hef ég þurft að flýja land, því mér var ekki boðið það lyf sem ég þurfti — það kom seinna, nánast daginn eftir að ég fór. Þar á undan, þurfti ég að eiga við Tryggingastofnun í heilt ár, því þeir neituðu að greiða mér það sem mér bar; þeir voru að spara — í boði alþingis. Reykjavíkurborg fannst húsnæðisþörf mín ekki nægilega brýn, svo ég beið í 6 mánuði eftir engu — eftir 7 ára bið. Allt þetta ofan á það fulla starf sem það er, að vera ég.

Það eru engin jólafrí, páskafrí — sumarfrí; ég tek ástand mitt með mér hvert sem ég fer — annað er ekki í boði. Og ég hef það ekki svo slæmt; ég get gengið — svona oftast; ég get matast — milli þess sem ég get ekki tuggið; rifið kjaft — þegar ég hef orku til að sitja; tekið til — ef ég þarf ekki að gera neitt annað; eldað — ef ég get beðið eftir að borða; hægt mér — þegar þannig stendur á. Og ég hef það alls ekki svo slæmt; það er svo margir aðrir, sem liður miklu ver en ég og þurfa svo nauðsynlega á aðstoð samfélagsins að halda, því þau hafa ekkert annað að leita. Og þau eiga börn og barnabörn og jafnvel langafa- og -ömmubörn; þetta er fólk sem langar svo mikið til að taka þátt í samfélaginu en er meinað það vegna ástands síns, fjárhags og fjandsamlegs viðmóts sem okkur er sýnt orðið, vegna þess að einhverjir gætu verið að svindla. alþingi segir það!

Ég gerði mistök í gær; ég ásakaði þingmann um ritskoðun, þegar ég gerði þau mistök að fara veggjavillt og taka aðra athugasemd sem þá fyrri og greyp í tómt. Mér þykir fyrir því að hafa ásakað þig, Birgitta, um að hafa ritskoðað mig. En það breytir samt ekki þeirri staðreynd, að þú ert tilbúin til þess, jafnvel þótt þau orð sem ég hef viðhaft síðustu daga, séu alls ekki nógu sterk eða öflug til að kalla á slík viðbrögð. Vissulega sagði ég eitt ljótt á þínum vegg, en ritskoðaði mig þar sjálfur; mér þætti gaman að sjá þig halda kúlinu undir sömu kringumstæðum. Þú tókst mig út af vinalista þínum eftir fyrstu alvarlegu gagnrýni mína á störf þín frá því þú settist inn á þing! Vinátta okkar hefur þá greinilega ekki verið meiri en það, að ég var nytsamur á meðan ég þagði eða hrósaði; ég veit ekki hvernig ég á að lesa út í þetta hjá þér — svo ég sleppi því bara og skrifa það á þína drottningastæla. Því þú hefur þá rétt eins og ég — það vitum við bæði. Ég dró einnig Illuga Jökulsson inn í þessar umræður, gersamlega að ósekju og við ég því biðja hann innilegrar afsökunar á þeim gerningi mínum; ég gerði mistök — hvað get ég sagt? Ég vona að þú finnir það hjá þér að fyrirgefa mér þau.

Og mér blöskraði; ég hef þurft að upplifa þetta leikrit inni á alþingi, ár eftir ár eftir ár eftir ár, án þess að nokkuð breytist — og þegar ég voga mér að segja þetta uppgerða undrun — þá er ég að gera fólki upp skoðanir. Þið verðið að fyrirgefa mér, en ég er ekki svona einfaldur, að halda að það sem hefur ekki gengið síðustu átta ár, er síst af öllu að fara að ganga núna, miðað við allt það sem á undan hefur gengið þarna inni á alþingi.

Það er haft eftir Einstein — eða svo lýgur netið — að skilgreiningin á geðveiki, er að gera sama hlutinn aftur og aftur en búast við annarri niðurstöðu. Nú hefur stjórnarandstaðan reynt, í nokkur ár, að bæta hag lífeyrisþega landsins — jafnvel þegar núverandi var fyrrverandi og fyrrverandi núverandi; allar stjórnarandstöður standa fastar með lífeyrisþegum, þangað til þær komast til valda — eða spila með. Ég er með vottorð í geðveiki — og mér finnst þetta bilun.

Einu sinni lagði ég af stað í vegferð, með nokkra aðila til stuðnings og sannfæringu á málefnið; á nokkrum dögum tókst okkur að safna liði, breyta ákvörðun og brjóta blað í sögu landsins, með aðeins 5000 nöfn og 4000 fætur. Ef ég hefði 90% þjóðarvilja að baki mér, í þeirri baráttu minni að vernda heilbrigðiskerfið, gerði ég allt sem í mínu valdi stæði til að stöðva störf alþingis, þangað til þing færi að vilja þjóðar.

Eitt sinn hóf ég baráttu, án mikils stuðnings — eiginlega í óþökk flestra, jafnvel ömmu minnar, sem bað mig „vinsamlegast að hætta þessari vitleysu.“ Nú blása vindar svo, að þing flestra vestrænna ríkja eru mér orðin sammála — nema þingið á Íslandi; það þumbast enn. Ef ég hefði vilja 80% þjóðarinnar að baki mér, í því að koma böndum á fiskveiðistjórnunarkerfið svo að arðurinn að auðlindunum færi til fólksins en ekki flokksgæðinga, þá gerði ég allt sem í mínu valdi stæði til að stöðva störf þingsins, þangað til þing færi að vilja þjóðar.

Ef ég hefði meirihluta þjóðarinnar að baki mér, í þeirri baráttu minni að koma á nýrri stjórnarskrá, gerði ég allt sem í mínu valdi stæði til að stöðva störf þingsins, þangað til þingið færi að vilja þjóðarinnar. Annað starf hefði ég ekki með höndum; núverandi þing situr í skugga valdaráns — að sitja þar þegjandi og hljóðalaust, kæmi aldrei til greina. Því miður þá át kerfið byltingarbörnin.

Ég biðst afsökunar á þeim mistökum mínum, sem urðu til þess að ég ásakaði Birgittu Jónsdóttir um ritskoðun. Ég biðst Illuga afsökunar á að hafa dregið hann inn í þessar umræður; ég vona að hann fyrirgefi mér það fyrir andlátið. En ég get ekki beðist afsökunar á reiði minni, þreytu, gremju — andskotans uppgjöf; ég ætla ekki að biðjast afsökunar á því að vera til, hafa tilfinningar, vera mannlegur og gera mistök. Andskotinn hafi það — ég hef rétt á að lifa, rétt eins og allir aðrir. Líka vandlætingarfull Birgitta, sem móðgaðist út í öryrkja, sem hefur ekki gert neitt annað en að sýna henni virðingu og stuðning. En ég er víst verri en óvinur fyrir vikið.

]]>
Opið bréf til stjórnarandstöðunnar — að mestu http://skorrdal.net/opid-bref-til-stjornarandstodunnar-ad-mestu/?utm_source=rss&utm_medium=rss Fri, 18 Dec 2015 12:29:35 +0000 http://skorrdal.net/?p=1913 Þótt svo ég ætli mér í þessu bréfi að ávarpa alla stjórnarandstöðuna, vegna umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2016, þá ávarpa ég hér sérstaklega þá einstaklinga, sem ég hef leyft að kynnast mér sem mest — og hafa einnig fengið á sig hörðustu gagnrýnina, þótt hún hafi oftar en ekki verið orðuð varfærnislega. Katrínu Jakobsdóttur ávarpa ég vegna hennar stöðu, en hef ekki gert mikið í að eiga við hana samskipti, enda ekki verið ástæða til. Fyrr en nú. Guðmund Steingrímsson, Róbert Marshall, Árna Pál og aðra glitpáfa stjórnarandstöðunnar hef ég í raun ekkert að segja, enda hef ég litla trú á því að þeir ráði í raun nokkrum sköpuðum hlut.

Birgitta Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson — og Katrín Jakobsdóttir; þið eru svo fölsk, að það hálfa væri andskotans nóg. Sú staðreynd, að eina ferðina enn skuli vera gengið framhjá öldruðum og öryrkjum við fjárlagagerð alþingis, er ekki ný frétt — eða eitthvað sem ætti að koma nokkrum á óvart, sem hefur fylgst með þessum skrípaleik sem samkunda alþingis er og allt það lygaleikrit sem í kringum þann farsa spinnst og kallast pólitík. Þið hafið nú spilað þennan leik lyganna nokkuð lengi, hvert og eitt ykkar. Auðvitað fáir lengur en Össur.

Össur minn; þú ert orðinn sem hrúðurkarl á stólsetum þingsalar, sem ekki er nokkur möguleiki á að ná af yfirborðinu, nema að skipta um innréttingar frá kjallara upp í rjáfur. Slímsetur ykkar Ómissandi eru lýðræðinu skaðlegar; ef þér er annt um lýðræðið, hleyptu að nýju blóði. Gamlir byltingarsinnar hafa oftar en ekki úreltar hugmyndir. Láttu mig þekkja það; ég er sjálfur að komast á síðasta söludag. Þú hefur á mig nokkra vetur, svo eflaust komnir kekkir í byltingarrjómann, Össur minn? Enginn á að þjóna þjóð sinni lengur en nokkur ár; það sem var hipp og kúl fyrir ungan Össur og flokkaflakkandi Ólaf Ragnar, hefur lítið verið uppfært, nema hvað módem var sett við skífusímann og faxtæki upp í sumarbústað.

Birgitta mín; þú veldur mér vonbrigðum. Miklum vonbrigðum. Ég bar til þín traust, sem ég byggði á okkar kynnum og afspurn minni af þér, sem byltingarsinna og hugsjónarmanni. Þú hafðir kjark, dug og þor — og eignaðir þér ýmislegt, sem ég hef ekkert út á að setja, enda skipta hugsjónirnar meira máli en upphefðin. Er það ekki annars? Var það ekki partur af því, sem fékk mig til að fylgjast með þér og taka eftir? Kannski misminnir mig eitthvað; ég er alltaf svo skakkur — eða eitthvað. Nú finnst mér hafa fallið á gjáandi silfrið; þegar ég legg mat á uppgerða undrun stjórnarandstöðunnar, er ég að gera þér upp skoðanir? Nei, Birgitta mín; ég er að gefa mitt álit, byggt á áratuga reynslu og eftirliti með samfélaginu, því sem ég kalla skyldu hvers skálds. Varstu búin að gleyma þeirri skyldu þinni, Birgitta mín? Eða hefur þú ekkert fylgst með því, hvernig komið hefur verið fram við aldraða og öryrkja, ár eftir ár — nú síðast fyrir ári síðan, við fjárlagagerð alþingis fyrir árið 2015? Er minni þitt orðið svona gloppótt — eða er undrun þín uppgerð? Hvernig sem ég horfi á það, Birgitta mín, þá hefur þú lagt af mikilvægustu hugsjóninni, að vera einlæg. Þú vissir alveg hvernig þetta færi með leiðréttingu aldraðra og öryrkja; mjög líklega var búið að semja um það fyrir löngu. Svo baular Össur upp úr sér í gær, að til viðbótar hækkun ykkar þingmanna, þá er gert ráð fyrir skattalækkunum á hæstu skattþrepin, svona í auka bónus. Og þetta vitið þið ekkert um, á síðustu metrunum fyrir jól — þegar þarf að semja um hvert einasta atriðið fyrir jólafrí, svo ekki þurfi að koma til þing milli jóla og nýárs? Eða, kannski fylgist ég ekki nægilega vel með, þegar þið talið og haldið að enginn sé að hlusta; þið nefninlega segið meira en þið haldið, þegar ekki liggur eins mikið á og fyrir jóla-, páska- og sumarfrí. En auðvitað er ég bara að bulla; þú ert undrandi á því að sitjandi ríkisstjórn snupri aldraða og öryrkja, þrátt fyrir að hafa setið á þingi í sex ár — og upplifað þetta amk. fimm sinnum áður. Deja vú ætti ekki einu sinni að vera spurning hjá þér lengur. En því miður, þá virðast hugsjónirnar skipta minna máli í dag en í upphafi þingsetunnar, því ég er hættur að trúa orði af því sem þú segir, Birgitta mín; svo samdauna finnst mér þú orðin viðbjóðnum. Það er miður. Munt þú hætta eftir tvö ár, eða verður þú þjóðinni ómissandi, á þeim erfiðu tímum sem þá verða uppi? Sjáum hvað setur.

Katrín Jakobsdóttir. Ég þekki þig ekki neitt, veistu. Þú hefur verið skörugleg og ákveðin, en átt alveg þín stóru mistök, vandræði og vesen. Nenni ekki að telja það upp; þú mannst þetta eflaust allt mun betur en ég. Mig langar samt að segja þetta við þig, eftir að ég las uppgerða undrun þína, um meðferð meirihluta alþingis á öldruðum og öryrkjum: Þú ert ekki næsta vonarstjarna þjóðarinnar. Því miður. Sú persóna situr ekki inni á alþingi í dag — hefur aldrei gert, né tekið þátt í ykkar hrossakaupum, í þessum leðjuslagi sem þið kallið stjórnmál á tillidögum. Næsta vonarstjarna Íslands er ekki einu sinni að bjóða sig fram til forseta; þar koma aðallega að eldgömul afrit af þáverandi þekktum andlitum, sem eru alveg jafn steingeldir einstaklingar og Össur blessaður og hans samtíðarmenn. Og þú mátt heldur ekki verða partur af innréttingunni á alþingi; það má ekki verða þitt hlutverk. Þing hefur ekki gott af því, þjóð hefur ekki gott af því, þú hefur ekki gott af því — og ég hef alls ekki gott af því. Þá þarf ég síðar meir að senda þér annað bréf, og ávarpa líkt og Össur að ofan! (Nei, Össur er ekki engill, þótt’ann sé að ofan.) Þjónusta við þjóð hefur ekkert með persónu þess að gera, sem þjónar — því ber þér að hugsa frekar um hag þjóðarinnar, en þinn eigin, þegar kemur að því að þér bjóðist kyndill, sem hugsanlega mun brenna þig frekar en lýsa leið þjóð og þér. Svo stíg varlega til jarðar; enginn er ómissandi.

Það voru ekki ungir og óreyndir þingmenn sem settu samfélagið á hausinn árið 2008; það voru ekki óvanir þingmenn, sem samþykktu arðrán það sem hefur staðið yfir amk. frá upphafi tíunda áratugsins. Að því stóðu sannarlega ungir stjórnmálamenn, en alls ekki óreyndir — studdir af nytsömum sakleysingjum, eða fúsum samfélagssvikurum og því fór sem fór. Og stjórnarandstaðan hverju sinni getur ekki fríað sig neinni ábyrgð; hún studdi þetta ár eftir ár, þótt svo hún greiði einhver atkvæði gegn hinu og þessu, þegar þarf að sýnast. Því það vita það allir, sem eitthvað vilja vita, að lýðræði finnst ekki inni á alþingi; þar ríkir ráðherraræði — þingmenn eru lítið annað en gúmmístymplar ráðherra flokkseigendanna, sem hafa meira að segja skrifað lagasettningar þær, sem alþingi hefur svo samþykkt. Svo augljóst er lýðræðisránið, að mig undrar að blindir landar mínir skuli ekki sjá hvernig þeir eru sviknir. Og þið takið þátt — þið getið ekki neitað því; þetta er sami saumaklúbburinn, með nokkrar deildir, sem þykjast berjast innbyrgðis, en klóra í raun hvert öðru á baki, því samtryggingin er algjör á báða bóga. Og ekki reyna að fela ykkur á bak við kjararáð, eða hvað það heitir; þið setjið lögin, er það ekki annars? Og ekki fela ykkur á bak við meirihlutann; þið fáið frí gleraugu og ipad og niðurgreiddann mat — og svo þykist þið vera undrandi, þegar alþingi stingur aldraða og öryrkja í bakið, enn eina ferðina. Annað hvort eruð þið aular — eða hræsnarar. Hvorugt hugnast mér.

]]>
Offita og samfélagssátt http://skorrdal.net/offita-og-samfelagssatt/?utm_source=rss&utm_medium=rss Fri, 11 Dec 2015 00:34:20 +0000 http://skorrdal.net/?p=1911

Fólk í ofþyngd hér á landi segist verða fyrir mismunun á grundvelli þyngdar sinnar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem landlæknisembættið hefur gefið út um viðhorf almennings til holdafars og aðgerða til að draga úr mismunun á grundvelli holdafars.

RÚV — Vinna þurfi gegn fitufordómum hér á landi

Eða — og ég veit að þetta er afskaplega á skjön við pólitískan rétttrúnað og kúmbajasamfélagsuppbygginguna sem allir vilja — að taka alvarlega á neysluvenjum sínum og hegðun?

Offita er hræðilegt ástand; ég þekki það af eigin raun. Ég hef misst sem samsvarar hálfu tonni á síðustu 20 árum. Og það tekur á að viðhalda þessari þyngd; það getur verið full vinna. Hádegissnakk fyrir hádegismat, svo samstarfsfólkið færi ekki að spá í því hversu mikið þú borðaðir; þrjár pylsur á Bæjarins Bestu — tvær ferðir með diskinn í mötuneytinu og svo grautur á eftir. Lífið var nautn — en sálarlífið var helvíti.

Ég trúði því að ég væri ekki feitur — bara stórbeinóttur og þéttur í holdum. Sú lygi hófst þegar ég byrjaði að fitna, rétt fyrir fermingu. Þegar ég fór til Þýskalands, sem var ein af mínum fermingargjöfum, þá þorði ég ekki að fara úr að ofan; brjóstin voru orðin svo stór. Óli feiti var samt ekki það versta sem ég var kallaður í skóla; þau sögðu það bara við mig. Hitt heyrði ég seinna — og þá snerti það mig ekki. En hefði farið illa með mig á þessum árum.

Og ég hélt áfram að fitna, tútna út og níðast á sjálfum mér, eins vel og ég mögulega gat. Svitinn bugaði niður andlitið í hvert sinn sem ég lagði mér mat að munni, en áfram hélt ég, sannfærður um að mér liði vel því ég þurfti ekki að neita mér um neitt. Ég var ósigrandi — í tilraun minni til tortímingar. Mér tókst að komast í 145kg áður en ég missti vitið — og 75 kíló. Og það á 22mur mánuðum. Það þótti ekki frétt þá; nú missir fólk veskið og allt verður vitlaust.

Við eigum ekki að sætta okkur við offituvandamál annarra; það er mannvonska að leyfa einstaklingum að lifa við slíka vanlíðan. Því ég er fullviss um það, að engum líður vel kílóatugum yfir kjörþyngd. Ég er ekki að ætlast til að allir verði að þvengmjóum íþróttaálfum, sem skoppa um allar andskotans koppagrundir eins og sinnepskeyrðar kanínur — alls ekki. Og væri síðastur til þess af öllum — nautnarseggurinn ég. En að hugsa um málið út frá eigin velferð og vellíðan, því ég myndi ekki vilja mínum versta óvini (ef ég ætti einhvern) það hlutskipti að vera of þungur.

Verkir, stirðleiki, léleg hreyfigeta, sykursýki, hjarta- og æðakerfisvandamál — meltingarkerfið í klessu; nýru, lifur, lungu og nef; höfuð, herðar, hné og tær — hné og tær.

Á þessu tók ég með kannabis, en í upphafi ætlaði ég mér að nota það til sjálfstortímingarinnar. Á þeirri vegferð hafði ég verið, nánast frá unglingsaldri. Mér tókst að snúa þessu við, reyndar með aðferðum sem ég mæli ekki með fyrir neinn, svo mjög tóku þær á — og gera enn. En munurinn er svo mikill, hvað líkama og sálartetur varðar, að ég vildi eiga töfralausn fyrir hvern þann einstakling sem þráir það eitt að léttast, eins heitt og þrá mín var þessi tæpu 20 ár sem ég bar með mér bróður á baki — well, maga. Og lærum, og rassi og höndum…

Svo hef ég einnig fengið að kynnast þeirri angist, að vera of léttur. Hún var alveg jafn óhugnanleg og hin, skal ég segja ykkur.

Ég vona að sem flestum líði vel í líkama sínum og þurfi aldrei að upplifa angist, ótta eða viðbjóð vegna eigin líkama. Ég óska öllum bestu heilsu, góðra hægða og gleðilegra nautnastunda við matborðið. Samt ekki í hægðum ykkar; það væri óviðeigandi. Lifið heil, hálf — eða tæplega tvö.

]]>
Glæpamaður http://skorrdal.net/glaepamadur/?utm_source=rss&utm_medium=rss Tue, 22 Sep 2015 11:49:28 +0000 http://skorrdal.net/?p=1901 Á þessum tíma fyrir tveimur árum síðan var mér tjáð að ég væri örlítið veikur. Ég var greindur með berkla og lifrarbólgu C, sem voru hratt að draga mig til dauða. Það var unnið hratt og ég settur í lyfjameðferð til að meðhöndla berklana, sem tók níu mánuði og mikil átök, svo mikil að þau drógu mig næstum því til dauða.

Berklarnir voru meðhöndlaðir fyrst, því ég átti ekki nema nokkra mánuði eftir ólifaða af þeirra völdum. Vegna þess hve berklameðferðin gekk nærri mér, bæði líkamlega og andlega, var ákveðið að bíða með lifrarbólgumeðferðina í nokkra mánuði. Sem betur fer; ég þurfti tíma til að jafna mig, koma á mig nokkrum kílóum og ná einhverjum styrk, því lifrarbólgumeðferðin sem er í boði í dag, svokölluð Interferon meðferð, er einnig mjög líkamlega og andlega krefjandi, getur tekið langan tíma og jafnvel ekki náð að lækna það mein sem lifrarbólga C er.

Allt frá upphafi hafa læknar vitað að eitthvað er ekki í lagi með ónæmiskerfið sem ég bý yfir. Í raun ætti ég að vera dauður fyrir löngu, en helvítið tórir víst enn, mörgum til óþæginda. Vélin framleiðir víst næg hvít blóðkorn, en þau fremja sjálfsmorð áður en þau geta orðið að einhverju gagni. „Ég vildi að þú værir með HIV, þá gæti ég læknað þig,“ sagði einn minn besti læknir við mig; ég treysti honum til að segja mér satt og rétt frá — aldrei þessu vant.

Vegna þessarar ónæmisbælingar hef ég þurft að berjast við ýmsar sýkingar og veikindi, sem annars hefðu flogið framhjá mér og hitt eflaust enga aðra, en því miður þá er það ekki minn raunveruleiki. Vegna þessarar ónæmisbælingar, hef ég verið að berjast við sýkingar í munni, sem hafa komið í veg fyrir að ég hafi getað nýtt mér þær tennur sem smíðaðar voru upp í mig — og nært mig vel — í eitt ár þann 6. október næstkomandi. Að vera tannlaus í heilt ár hefur tekið meira á mig en margt annað af því sem ég hef verið að takast á við síðustu ár. Og sársaukinn er óbærilegur, þegar sýkingarnar eru sem verstar. Ekki einn einasti læknir veit hvað veldur; eina meðferðin sem mér er boðið eru verkjalyf og munnskol.

Þegar mér var loksins boðin Interferon meðferðin var það komið í ljós að ónæmiskerfið myndi ekki höndla slíka meðferð, heldur værir lækningin dauði, sem ég gat alls ekki sætt mig við. Þótt svo ég hafi óskað mér dauða nærri daglega í fjögur ár, þá er það ekki sú leið sem mig langar að fara, svo ég hafnaði Interferonmeðferðinni samdægurs. Síðar tjáð lifrarbólgusérfræðingurinn (sem sagði að kannabis ylli skorpulifur og uppskar háð beggja vegna Atlantshafsins) minn mér, að hann treysti mér ekki í Interferonmeðferðina vegna ónæmiskerfisins, löngu eftir að ég hafði gert mér grein fyrir hlutunum. Hann bauð enga aðra meðferð, þar sem Ríkið væri að spara.

Í eitt ár beið ég eftir góðum fréttum, í von um að ég fengi þau lyf sem ég þyrfti til að ná heilsu, en ekkert varð úr neinu. Svo, þegar heilbrigðisráðherra gaf það út, að nokkrir sjúklingar myndu fá þetta nýja lyf við lifrarbólgu C leyfði ég mér að vona að ég fengi það lyf, því sérfræðingarnir hafa hingað til haldið því fram að ónæmiskerfið væri í skralli, vegna lifrarbólgunnar; læknum lifrarbólguna þá kemur hitt á eftir. En, nei; ég er ekki nægilega veikur til að fá þetta nýja lyf svo mér er enn gert að bíða, eftir einhverju sem enginn veit hvað verður. Ég hef ekki efni á að bíða.

Þessi ár, sem ég hef verið að bíða eftir engu, hef ég kynnst fjölda fólks um víða veröld, sem hafa átt — og eiga enn — við svipaða sjúkdóma og ég hef verið að berjast við. Auðvitað ekki allt það sama, en einn þeirra var kominn með síðasta stig lifraskemmda — skorpulifur — og var hann í sömu stöðu og ég: Hann hafði verið dæmdur til dauða af eigin samfélagi. Því það er ekkert annað en dauðadómur, að neita sjúklingi um lyf sem bjargar lífi hans. Samfélagið allt verður að sætta sig við þá ábyrgð — ekki aðeins ráðherrar og þingmenn, heldur hver og einn einstaklingur í þessu samfélagi, sem finnst það rétt að dauðvona sjúklingum sé neitað um lyf eða meðferð í þeim tilgangi einum að spara nokkrar krónur. Þú ert ábyrg/ur — þú gerir þér vonandi grein fyrir því, er það ekki?

Lífsbjörgin

Lífsbjörgin

Ég fór ekki til Spánar til að gerast glæpamaður; ég kom til Spánar svo ég þyrfti ekki að vera glæpamaður. Ég hafði heyrt af meðferð sem hafði gefið góða raun og nú ætla ég mér að prófa hana. En á Íslandi hefði lífsbjörg mín gert mig að glæpamanni; þrá mín fyrir heilsu og betra lífi, með því lyfi sem ég kýs að nota, gerir mig sjálfkrafa að glæpamanni. Því var ekkert annað að gera en að flýja land; gerast heilbrigðisflóttamaður frá Íslandi til að halda lífi — og því litla sem er eftir af heilsuleysinu. Næsta skref er gröfin — og ég er ekkert á leiðinni þangað á næstunni.

Íslenskt samfélag er rotið ofan í rót — og almenningur er ábyrgur fyrir ástandinu. Það krefjast flestir réttlætis fyrir Fanneyju — og hafa jafnvel stungið upp á söfnun, til að borga fyrir hana lyf. En hvað um okkur hin, sem erum í nákvæmlega sömu stöðu? Skiptum við minna máli en Fanney, bara vegna þess að við höfum ekki efni á lögfræðingi til að sækja okkar mál? Er þjáning okkar minna virði en þjáning Fanneyjar, bara vegna þess að hún smitaðist við blóðgjöf en við hin ekki? Fordómarnir eru hrópandi — og er ég feginn að vera ekki partur af samfélagi, sem svo auðveldlega dæma þjáningar annarra sem minniháttar, bara vegna þess að þeir áttu meiri sök í máli. Eigum við þá að neita HIV smituðum um meðferð á svipuðum forsendum? Eða berklasjúklingum?

Íslenskt samfélag mun ekkert breytast fyrr en almenningur tekur samfélagið aftur í sínar hendur og hrekur á brott þau græðgisöfl sem hafa stjórnað síðustu áratugina. En íslendingar eru ekki þess bornir að bera hönd yfir höfuð sér — né heldur standa vörð um framtíð barna sinna eða samfélags. Það er mér orðið ljóst. Ekkert mun breytast fyrr en þjóðin rýs upp — hún hefur bara ekki kjark til þess. Og vegna þessa aumingjaskaps er búið að hola innviði samfélagsins að innan, svo ekkert stendur eftir nema leikmynd, sem hratt er að hrynja til jarðar. Njótið.

]]>
Flúinn úr fjötrum fjandskapar http://skorrdal.net/fluinn-ur-fjotrum-fjandskapar/?utm_source=rss&utm_medium=rss Tue, 01 Sep 2015 00:00:36 +0000 http://skorrdal.net/?p=1897 Heilbrigðislegur flóttamaður

Umræða um flóttamenn hefur tekið mikið pláss í samfélaginu þessa síðustu daga og vikur, sérstaklega í ljósi þess smáa hóps sem íslensk stjórnvöld eru tilbúin að taka á móti næstu tvö árin. Tvennar raddir takast á; ein röddin vill bjóða fleiri flóttamönnum til landsins, helst fimm hundruð, á meðan hin röddin segir að best sé að taka til hérna heima, áður en við förum að hjálpa fólki frá öðrum löndum. Ég er svo þröngsýnn, að ég tel okkar samfélag geta hvoru tveggja; tekið vel á móti flóttafólki og fullt af því — og hugsað vel um þá sem minna mega sín í okkar samfélagi. Til þess eru auðlindir okkar nægar — en þeim er svo svívirðilega misskipt.

Frá hruni hefur Ríkið verið að spara á ýmsum sviðum, meðal annars hefur heilbrigðisgeirinn þurft að draga saman um margfallt það sem málaflokkurinn þolir. Tel ég þetta með ráðum gert, til að sýna fram á vangetu ríkisvaldsins að reka sjúkrahús, svo síðar megi einkavæða bestu bitana og færa þá fáum til að græða á. Kostnaðarþátttaka í lyfjakostnaði hefur aukist til muna, jafnvel þótt svo þeir sem nota lyf hvað mest hafi átt að fá meiri afslátt þegar á heildina er litið. Slíkt virðist gerast sjaldnar en ætlast er til, þegar stjórnmálamenn eiga í hluti. Sparnaður á heilbrigðissviði hefur gengið að heilrigðiskerfinu nánast dauðu.

Vegna alls þessa, hefur Ríkið tekið þá ákvörðun að neita sjúklingum um bestu fáanlegu lyf, eins og kveður á í lögum, en beinir þeim í eldri og verri lyf, sem eru vissulega ódýrari en valda jafnvel varanlegum skaða á þeim sem þau eiga að hjálpa. Nú hefur ríkisvaldið ákveðið að veita nokkrum einstaklingum þetta lyf, en því miður telst ég ekki nægilega veikur til að vera í þeim hópi, svo enn er ég dæmdur til dauða. Neyðist ég því til að gerast heilbrigðislegur flóttamaður; ég neyðist til að flýja land, í von um að finna mína lækningu annarsstaðar, þar sem hana er ekki að finna á Íslandi. Get ég því fullvel skilið þá flóttamenn, sem nú berja á dyr Evrópu, í von um betra líf — lifandi.

Efnahagslegur flóttamaður

Í sjö ár hef ég verið með virka umsókn um félagslega íbúð hjá Reykjavíkurborg, með fimm árum án þess að ýta á eftir neinu. Það er mér gersamlega ómögulegt að leigja á opnum markaði, þar sem öryggi er í lágmarki og kostnaður í hámarki, sérstaklega þar sem kjarabætur frá árinu 2009 hafa verið frystar með öllu. Verðlag hefur hækkað á hverju ári, skattar á matvöru verið hækkaðir, lyfjaverð hefur hækkað umtalsvert, og svo margskonar aðrar hækkanir sem dunið hafa á samfélaginu að undanförnu. Meira að segja þingmenn fengu sínar kjaraskerðingar bættar — og það aftur í tímann. Aldraðir og öryrkjar hafa setið eftir, án lögbundina hækkanna. Hvað svo sem ráðamenn reyna að ljúga að almenningi.

Lyfjakostnaður vegna afleiðinga minna sjúkdóma hefur hækkað umtalsvert og einu lausnirnar sem læknar á Íslandi bjóða mér, eru fleiri lyf, meiri kostnaður en engin lækning. Það get ég á engan hátt sætt mig við, þar sem lyfjakostnaður er orðinn of mikill, að ég neyðist til að flýja land af efnahagslegum forsendum. Ég get vel skilið þá flóttamenn, sem flýja sína heimahaga, vegna þess að þeir geta ekki veitt sér og sínum farborða. Við eigum að aðstoða þá einstaklinga eins vel og við getum.

Andlegur flóttamaður

Að upplifa slíka höfnun, að fá hvorki lyf né félagslegan stuðning til að takast á við veikindi og lífið, rífur djúp sár í sálartetrið og mikil reiði brýtur sér leið á yfirborðið, þegar síst skildi. Og ég hef verið reiður — mjög reiður. Út í kerfið, þá einstaklinga sem spila með það, þá sem koma þeim til valda — þá sem voga sér að verja viðbjóðinn, hversu ógeðslegur sem hann reynist. Samfélagið er á barmi geðveiki, sem mögulega gæti orðið of seint að snúa við, ef valin er röng leið út úr ógöngunum. Frá þessari sundrung verð ég að koma mér — frá þeirri reiði, sem hefur grafið um sig í sálartetri mínu og er aðeins slæm fyrir mig sjálfan.

Ég er á flótta undan afskiptaleysinu, andvaraleysinu, athafnaleysinu — doðanum sem umvafið hefur samfélagið í svo langan tíma, að jafnvel pottaglamur eftirhrunsmánaðanna dugði ekki til að vekja sofandi þursann. Það er samt nauðsynlegt fyrir þjóðina að vakna upp; rísa upp og gefa það skýrt út, að samfélagseigurnar verða ekki gefnar eða arðrændar stundinni lengur, heldur er þetta sameign þjóðarinnar, fyrir hana að nota, akkúrat fyrir sameiginleg verkefni sem skilar okkur öllum betra samfélagi. Ekki aðeins nokkrum flokkseigendum. Þangað til það gerist mun ég halda mig fjarri; andlegur flóttamaður, fjarri ættjörðinni — að forðast þá gremju að horfa á aðgerðarlausa þjóðina arðrænda á skrifstofutíma.

Betri tið með blóm í haga

Rétt eins og ég er að fara til að sækja mér betri heilsu og bjartari framtíð, vona ég að þjóð mín sjái nú ljósið og verji framtíð sína, fjárhag og náttúru. Hvort vegsemd okkar fari saman get ég ekki sagt til um, þótt ég viti að mér muni takast ætlunarverk mitt. Býr sú von í brjósti mínu, að samfélagið og þjóðin þroskist vel, læri að nýta og virða lýðræðið; kenni kjörnum fulltrúum okkar að halda sig á mottunni — og stíga ekki skrefinu út fyrir á nýbónaðaðar flísarnar. Í dag býr von í brjósti mínu, aldrei þessu vant. Vonandi finna sem flestir þessa von, svo hægt verði að gera eitthvað róttækt, uppbyggjandi og jákvætt.

]]>
Bótaþegar — og aðrir ördrættingar http://skorrdal.net/botathegar-og-adrir-ordraettingar/?utm_source=rss&utm_medium=rss Thu, 30 Jul 2015 01:04:40 +0000 http://skorrdal.net/?p=1229

[Rannsóknin] staðfestir það, sem áður hefur verið vitað, að margir aldraðir og öryrkjar geta ekki lifað eðlilegu lífi vegna þess, að ríkið skammtar þeim svo nauman lífeyri, að þeir geta ekki framfleytt sér að fullu. Samkvæmt þessu er ljóst, að ríkið er að brjóta stjórnarskrána með þessu framferði gegn lífeyrisþegum. Réttur aldraðra og öryrkja til þess að lifa eðlilegu lífi er stjórnarskrárvarinn. Þegar stjórnvöld eru að skera mikið niður greiðslur til aldraðra og öryrkja eins og nú, eru þau að brjóta stjórnarskrána. — Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara (Vísir.is)

Það er ekki langt síðan ég benti á lögbrot þau sem framin eru á sjúklingum í þessu landi — og nú er bent á enn eitt lögbrotið, sem varað hefur í fimm ár — og í raun mun lengur.

Allt frá því tekjur aldraðra og öryrkja voru afnumdar tengingu við launavísitölu hafa aldraðir og öryrkjar dregist aftur úr öðrum í samfélaginu og þurft að herða sultarólina enn meira. Nú er svo komið að hún verður ekki hert frekar, nema eitthvað láti undan. Erum við því að horfa upp á tímabil, þar sem fólk fer að hrökkva upp af vegna kulda, matar- og lyfjaskorts — og sjálfsmorðum mun fjölga, þótt svo ekki megi halda um slík atvik sérstaka skráningu. Og þetta gengur ekki lengur.

Samfélagið verður að fara að ákveða sig, hvort það vill vera velferðarsamfélag, eða hvort við viljum fara sömu leið og Bandaríki Norður-Ameríku, þar sem frumskógarlögmálið ræður ríkjum og hinir auðugu níðast á öllum hinum, í græðgi sinni og ofríki. Ég veit fyrir mitt leiti, að slíkt samfélag kæri ég mig alls ekki um — en því miður, þá stefnum við þangað á ljóshraða.

Ríkisstjórnin ætlar nú láta lífeyrisþega fá þriðjung af þeirri hækkun, sem launþegar fá á nýju samningstímabili. Það er hoggið í sama knérunn og áður. Í stað þess að láta lífeyrisþega fá meira en launþegar fá til þess að leiðrétta lífeyrinn vel er skorið niður til lífeyrisþega eins og áður. Lífeyrir einhleypra lífeyrisþega, sem einungis hafa tekjur frá TR, er í dag 225 þúsund krónur fyrir skatt, 192 þúsund eftir skatt. — Björgvin Guðmundsson

Það eru ekki aðeins tekjurnar sem hafa ekki fylgt hækkun launa og verðlags, eins og lög kveða á um — en voru aftengd eftir hrun. Allur kostnaður hefur hækkað verulega, hvort sem það er lyf, lækniskostnaður eða matur, sem hefur hækkað um margfallda smánarhækkun tekna aldraðra og öryrkja frá hruni. Því hefur sá kostnaður, sem alltaf er hærri á þá tekjulægri, hækkað svo mjög, að sumir sjá sér ekki fært að borða eða sækja sér læknisþjónustu, sem þó ætti að vera aðgengileg öllum í okkar samfélagi. Ekki aðeins hinum ríku. Því miður virðist stefna stjórnvalda vera sú, að útrýma óþarfa manneskjum í samfélaginu — okkur hinum ósæskilegu, sem erum aðeins afætur og bótasvikarar, samkvæmt orðræðunni.

Vissulega eru aldraðir og öryrkjar margir, en flestir þeirra hafa greitt sitt til samfélagsins — sumir í áratugi, áður en þeir fóru á eftirlaun. Sem hópur, fá þessir einstaklingar háar fjárhæðir frá Ríkinu, sem sumir bölsótast yfir, fussa og sveija. Engu að síður eru þetta ekki stærstu bótaþegar samfélagsins, heldur hinir, sem kvarta hvað mest yfir öldruðum og öryrkjum, bótasvikum og hversu dýrt þetta er allt saman.

Stærstu bótaþegar landsins eru að sjálfsögðu stóriðjufyrirtækin sem reka hérna verksmiðjum með fáránlega lágu raforkuverði, sem við hin þurfum að borga niður með hærra raforkuverði til okkar, eigenda raforkuframleiðslunnar. Næst á eftir koma útgerðamenn og bankaeigendur, stjórnmálaflokkar og -menn, sem eru á margskonar bótum, héðan og þaðan — og fá að virðist aldrei nóg. Þessi grátkór hefur hæst — og hefur það best. Þeir eru okkar vandamál, ekki aldraðir og öryrkjar.

Það er löngu kominn tími á að tekjur aldraðra og öryrkja verði leiðréttar, rétt eins og tekjur stjórnmálamanna voru leiðréttar — afturvirkt. Þetta er ekki lengur spurning um hvort við höfum efni á því — því við höfum vel efni á góðu heilbrigðis- og velferðarkerfi í þessu landi. Heldur er þetta orðin spurning um líf og framtíð þessarar þjóðar. Hvert viljum við stefna? Er þetta það samfélag sem við viljum byggja? 90% þjóðarinnar vill hafa ríkisrekið heilbrigðiskerfi — því er þá verið að einkavæða það fyrir augunum á okkur?

Við verðum að spyrna á móti þessum breytingum, áður en það verður of seint. Þetta er okkar samfélag — okkar velferðar- og heilbrigðiskerfi. Ekki spilapeningar gráðugra vina stjórnmálamanna, sem virðast getað farið um eigur samfélagsins, eins og þeir eigi þær prívat og persónulega. Höfum við hreðjar til að spyrna á móti? Erum við menn eða mýs?

]]>
Loksins lokið! Samt ekki alveg… http://skorrdal.net/loksins-lokid-samt-ekki-alveg/?utm_source=rss&utm_medium=rss Mon, 27 Jul 2015 12:24:47 +0000 http://skorrdal.net/blogg/?p=1203 Eftir maraþon helgi hef ég loksins lokið við að fara yfir greinasafnið, sett inn stikkorð, lagað texta (vonandi sett greinarskil á rétta staði og svoleiðis) og farið yfir tengla. Svona flesta — og ef þið finnið óvirkan tengil, endilega látið mig vita.

Í þessu safni má finna margt skemmtilegt, eins og fyrstu opinberu færslu mína um lögleiðingu kannabis, baráttuna gegn njósnum Ríkisins, áhyggjur af nýjum páfa, gagnrýni á trúmál og Krossfarann, ásamt því þegar ég kláraði mína fyrstu skáldsögu, sögur af handrukkurum og margt fleira. Þessi helgi hefur farið í skemmtilega upprifjun, svo ekki sé meira sagt.

Undanfarinn áratugur hefur verið mikil rússíbanareið, eins og sjá má af skrifunum. Það fékk samt ekki allt að fylgja með; ég sá engan tilgang í því að hafa gamlar stöðuuppfærslur um mjaðmaverki og útlenska rigningu; nokkur orð, sem skipta engu máli í stóra samhenginu. Eyddi þeim samt ekki; ég er of mikill safnari til þess, heldur held þeim til haga, ef ske kynni ég vildi gera enn meira grín af sjálfum mér.

Það var svolítið skondið að sjá, hversu vænt mér hefur þótt um Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. Ég fæ enn grænar bólur við að sjá nafnið hans — og hugsa til þess, að hann hafi eitt sinn verið æðsti maður dómsmála á Íslandi. Þeir hafa nú samt ekki komið í röðum, hinir réttsýnu dómsmálaráðherra eftir að hann hætti; þeir hafa verið engu skárri fasistar, fyrir utan einn — hugsanlega.

Eitt er samt eftir, sem ég veit ekki hvort ég leggi í — og það er að flytja Moggabloggið inn í þetta kerfi, til að auðvelda með leit og annað slíkt. Það verður mikil vinna og púsluspil, sem ég er ekki alveg að leggja í þessa stundina. Það kemur hugsanlega síðar, þótt síðar verði.

Einnig hef ég komið fyrir á einum stað öllum hugverkunum mínum, sem hægt er að nálgast endurgjaldslaust hérna á vefnum. Það er í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem það er hægt og gleður það mig mjög. Nú get ég andað rólegar, hallað mér aftur og beðið eftir því að einhver nenni að sækja sér eintak.

Mig langar að minna á forsölu á Líknarljóðum, sem gefin verður út núna eftir rúmar tvær vikur, fyrir þá sem hafa áhuga á ljóðalestri — og að styrkja mig í Baráttunni til heilsu. Lokað verður fyrir forsöluna 1. ágúst nk.

]]>
Já — ég veit. http://skorrdal.net/ja-eg-veit/?utm_source=rss&utm_medium=rss Sun, 26 Jul 2015 14:15:59 +0000 http://skorrdal.net/blogg/?p=1001 Er að prófa mig áfram með útlit, svo þetta gæti verið svolítið breytilegt á köflum. Biðst ég velvirðingar á þeim truflunum.

]]>